Mál númer 202009206
- 30. september 2020
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #768
Erindi Umhverfisstofnunar um auglýsingu á starfsleyfi fyrir gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs. í Álfnesi. Frestur til að skila athugasemdum við tillöguna er til og með 2. október 2020.
Tillaga bæjarfulltrúa L-lista:
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar felur umhverfissviði að skoða málið nánar og nýta sér umsagnarétt vegna tillögu að starfsleyfi fyrir gas- og jarðgerðarstöð.Tillaga bæjarfulltrúa L-lista felld með sjö atkvæðum. Bæjarfulltrúar L- og M-lista greiddu atkvæði með tillögunni.
Bókun bæjarfulltrúa L-lista:
Bæjarfulltrúi L-listans Mosfellsbæjar ítrekar efasemdir sínar varðandi tillögu að starfsleyfi fyrir gas- og jarðgerðarstöð SORPU og hvetur til þess að láta ekki "tæknileg" atriði og óskhyggju blinda sig. Það er jafnframt afar sorglegt að athugasemdunum sé stillt upp sem aðför að framgangi GAJA, því fer fjarri.Bókun bæjarfulltrúa M-lista:
Þessi áform SORPU geta skapað íbúum Mosfellsbæjar tjón með áframhaldandi óþef og illa lyktandi umhverfi í okkar fallega bæjarfélagi. Munu íbúar bæjarins eiga á hættu að áframhaldandi óþægindi stafi frá urðunarstöðum á Álfsnesi. Einnig er raunveruleg hætta á að þessi áform SORPU gætu stuðlað að enn frekari töfum við uppbyggingu og lagningu 2. áfanga Sundabrautar á svæðinu sem á eftir að fara í umhverfismat og endanlega hönnun hvað legu hennar varðar um Álfsnes.Bókun bæjarfulltrúa C-, D-, S- og V-lista:
Bókun bæjarfulltrúa M-lista lýsir algjörri vanþekkingu hans á málinu. Bygging gas- og jarðgerðarstöðvar er eitt stærsta einstaka umhverfisverkefnið sem ráðist hefur verið í hérlendis á liðnum árum. Hún er meðal annars reist til þess að koma í veg fyrir þau óþægindi sem að íbúar Mosfellsbæjar hafa orðið fyrir af urðunarstaðnum í Álfsnesi undanfarna áratugi. Eins og bæjarfulltrúa M-lista ætti að vera fullkunnugt um hefur sérstaklega verið gert ráð fyrir legu Sundabrautar um Álfsnes og byggingarstaður gas- og jarðgerðarstöðvar sérstaklega staðsettur með tilliti til Sundabrautar. Bókanir sem þessar er annað hvort settar fram af fullkominni vanþekkingu eða til þess að reyna að slá ryki í augu bæjarbúa.Gagnbókun bæjarfulltrúa L-lista:
Rétt er að taka undir bókun C, D, S og V-lista að gas- og jarðgerðarstöðin sem risið hefur í Álfsnesi er gríðarlega mikilvægur áfangi í meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu og Íslandi öllu.Gas- og jarðgerðarstöðinni er hins vegar ekki ætlað að leysa alla urðun af hólmi, heldur einungis að vinna úr lífrænum hluta almenns heimilisúrgangs frá sorphirðu sveitarfélaganna. Eftir standa um 100.000 tonn af úrgangi á ári sem berast nú til urðunarstaðar í Álfsnesi og sveitarfélögin munu áfram þurfa að fást við, þrátt fyrir tilkomu GAJA. Það er því bæði ónákvæmt og jafnvel óábyrgt að taka það ekki fram.
Gagnbókun bæjarfulltrúa M-lista:
Bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Samfylkingar og Viðreisnar upplýsir vel hve illa fulltrúar þessara flokka eru inn í umræðu líðandi stundar varðandi minjavernd á Álfsnesi. Eftir stendur sú staðreynd að með deiliskipulagi samþykktu árið 2015 var gas- og jarðgerðarstöð SORPU staðsett þannig að fækka kostum um legu brautarinnar sbr. skýrslu Minjasafns Reykjavíkur 2008. Það er ljóst að 2. áfangi Sundabrautar mun liggja um Álfsnes og hefur enn ekki farið í umhverfismat. Því og þess vegna er lega hennar ekki endanlega komin í ljós m.a. í ljósi þess sem fram hefur komið í opinberri umræðu. Þá liggur ljóst fyrir að með urðunarstað, þar sem SORPA vill nú bæta við á Álfsnesi, gæti slíkt skapað aukið flækjustig í tengslum við legu Sundabrautar, hönnun og skipulag. Endanlegri hönnun á legu brautarinnar er ekki lokið og allar framkvæmdir á Álfsnesi munu auka hættu á að Sundabraut verði ekki lögð á svæðinu. Bókanir framangreindra flokka er ekki til þess fallin að lýsa vel áformum þeirra við að standa vörð um hagsmunamál Mosfellinga og stuðning við lagningu Sundabrautar.Bókun bæjarfulltrúa C-, D-, S- og V-lista:
Samkvæmt eigendasamkomulagi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem undirritað var í júlí 2020 mun urðun í Álfsnesi hætta fyrir fullt allt árið 2023. Urðun lífræns úrgangs verður hætt í lok árs 2021 og á því ári má aðeins urða 6000 tonn af lífrænum úrgangi. Eigendasamkomulagið kveður á um að urðun í Álfsnesi verði hætt og aðrar leiðir farnar. Það er ábyrgðarhluti að halda öðru fram. Við ítrekum að Sundabraut og Minjavernd koma starfsleyfi Gas- og jarðgerðarstöðvar ekki við. Það væri nær að bæjarfulltrúar L og M lista stæðu með öðrum í bæjarstjórn Mosfellsbæjar við að verja hagsmuni Mosfellinga varðandi úrgangsmál í Álfsnesi.
Afgreiðsla 212. fundar umhverfisnefndar samþykkt á 768. fundi bæjarstjórnar með sjö atkvæðum. Bæjarfulltrúi L-lista greiddi atkvæði gegn afgreiðslunni og bæjarfulltrúi M-lista sat hjá. - 17. september 2020
Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar #212
Erindi Umhverfisstofnunar um auglýsingu á starfsleyfi fyrir gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs. í Álfnesi. Frestur til að skila athugasemdum við tillöguna er til og með 2. október 2020.
Umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd.
Bókun L-lista:
Nefndarmaður Vina Mosfellsbæjar gerir athugasemd við það að í tillögu að starfsleyfi fyrir gas- og jarðgerðarstöð SORPU sé gert ráð fyrir móttöku á allt að 10.000 tonnum á ári af " fljótandi lfrænum heimilisúrgangi" án frekari skýringa. Í greinagerð með umsókninni er reyndar vísað í sama magn sem "fljótandi úrgang frá matvælaiðnaði". Ekki er því ljóst um hvað er verið að tala né hvort það samræmist eigendasamkomulagi sveitarfélaganna.