Mál númer 202001379
- 5. febrúar 2020
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #753
Kynning innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar á skýrslu sinni.
Afgreiðsla 1430. fundar bæjarráðs samþykkt á 753. fundi bæjarstjórnar með átta atkvæðum. Fulltrúi M- lista situr hjá.
Bókun C- og S- lista:
Skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkur vegna framkvæmda við gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs leiðir í ljós mikla veikleika í stjórnun fyrirtækisins. Áætlunargerð var í skötulíki og eftirlit virkaði ekki.Tekið er undir með skýrsluhöfundum um að lög um skipan opinberra framkvæmda eigi ætíð að vera höfð til hliðsjónar við stórar framkvæmdir á vegum byggðarsamlaga í eigu sveitarfélaga.
Mikilvægt er að eigendur SORPU,sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, bregðist við þessari skýrslu með því að læra af mistökunum sem gerð hafa verið með því að bæta stjórnarhætti byggðarsamlaga, auka gagnsæi, skerpa lýðræðislegt umboð og efla eftirlitstæki eigenda til þess að tryggja almannahagsmuni.
Bæjarfulltrúar Viðreisnar og Samfylkinga kallar því eftir því að á vettvangi SSH verði hafin endurskoðun á stjórnun byggðarsamlaga sem fyrst sem miði að því að gera hana skilvirkari og faglegri.. Mikilvægt er að leita að breiðri pólitískri samstöðu í þeirri vinnu.
Bæjarfulltrúi L- lista tekur undir bókun C- og S- lista.
Bókum M- lista:
Fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Mosfellsbæjar þykir miður að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar (IER) hafi gefið út í desember 2019 skýrslu um Sorpu BS sem er jafn illa unnin og röng sem raun ber vitni. Hún virðist gerð með áeggjan um að framkvæma pólitíska og hugsanlega persónulega árás á ákveðna einstaklinga að ósekju. Ekki er gert ráð fyrir að stórum fjárhæðum yrði komið fyrir með réttum hætti og það gert af hálfu eigendahóps Sorpu og stjórnar sem reyndar fer með ábyrgð á framkvæmdinni (sbr. áréttingu á bls. 37 í framangreindri skýrslu). Ekki er séð í þessari skýrslu að haft hafi verið samband við innri endurskoðanda Sorpu eða aðila í stjórn sem þar sátu þegar ákvarðanir voru teknar á árum áður. Það sem ætti nú við er að stjórn Sorpu segði öll af sér og eigendahópur byggðarsamlagsins huguðu að stöðu sinni og ábyrgð. Það er þyngra en tárum taki að sjá framgang stjórnar og eigenda Sorpu þar sem markmiðið er að hengja bakara fyrir smið í þessu máli öllu saman. Í stýrihópnum sat bæjarstjóri Mosfellsbæjar og fundaði sá hópur aðeins tvisvar á árabilinu 2017 til og með 2019 þrátt fyrir áform um að funda mánaðarlega. Hluta úr skýrslu IER hefur bæjarstjóri Mosfellsbæjar mótmælt á þessum bæjarstjórnarfundi með vísan í nýlegt erindi frá SSH sem vekur margar áleitnar spurningar. Sterkar líkur eru á meiriháttar vangá og tómlæti að ræða af hálfu bæjastjóra Mosfellsbæjar sem sat fh. bæjarins í framangreindum stýrihóp ásamt öðrum sem bera mikla ábyrgð í málinu. Reikna má með því að framangreindir aðilar verði látnir bera sína pólitísku ábyrgð þó síðar verði.Bókun V- og D- lista:
Það var undir forustu stjórnar Sorpu að úttekt var gerð á framkvæmdum við gas- og jarðgerðarstöð og starfsemi félagsins þegar í ljós kom veruleg framúrkeyrsla við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar í júní 2018. Stjórn Sorpu fékk Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar til þess að gera úttekt á verkinu og félaginu sem hefur leitt í ljós að upplýsingagjöf til stjórnar var verulega ábótavant.Við teljum að að stjórn Sorpu hafi brugðist rétt við þeirri stöðu sem upp kom, og lýsum við fullum stuðningi við stjórn Sorpu, eigendavettvang SSH og bæjarstjóra Mosfellsbæjar í þessu máli.
- 30. janúar 2020
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1430
Kynning innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar á skýrslu sinni.
Fulltrúar innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar kynntu skýrslu innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar og svöruðu spurningum bæjarráðs um efni hennar.
Bókun C- lista:
Skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkur leiðir í ljós ágalla á stjórnun Sorpu. Tekið er undir með henni að lög um skipan opinberra framkvæmda eigi ætíð að vera höfð til hliðsjónar við stórar framkvæmdir á vegum byggðasamlags í eigu sveitarfélaga.Þrátt fyrir að skipaðir væru rýnihópur Sorpu, stýrihópur eiganda og rýnihópur fjármálastjóra gáfust allir þessir hópar upp á eftirlitshlutverkinu sem þeir áttu að sinna fyrir stjórnendur Sorpu, stjórn og eigendavettvang sem skipaður er borgarstjóra og bæjarstjórum.
Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þurfa að bregðast við þessari skýrslu með nýjum og bættum vinnubrögðum fyrirtækja í þeirra eigu sem byggja á gagnsæi og tryggja almannahagsmuni íbúanna.
Bæjarfulltrúi Viðreisnar kallar eftir því að hafin verði vinna við endurskoðun á stjórnun byggðarsamlaga innan SSH sem miði að því að gera hana skilvirkari og faglegri.
Bókun D- og V- lista:
Það var undir forustu stjórnar Sorpu að úttekt var gerð á framkvæmdum við gas- og jarðgerðarstöð og starfsemi félagsins þegar í ljós kom veruleg framúrkeyrsla við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar í júní 2018. Stjórn Sorpu fékk Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar til þess að gera úttekt á verkinu og félaginu sem hefur leitt í ljós að upplýsingagjöf til stjórnar var verulega ábótavant.Stjórn Sorpu fékk reglulega framvinduskýrslur sem áttu að sýna heildarstöðu verksins þ.m.t. kostnað sem til er fallinn á hverjum tíma. Skýrslurnar gáfu hins vegar ekki rétta mynd af heildarkostnaði verksins og eins og segir í skýrslu Innri endurskoðunar: Að mati Innri endurskoðunar verður alvarlegur misbrestur í upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar þegar Mannvit leggur fram nýja áætlun aðeins mánuði eftir að fimm ára áætlun SORPU 2019- 2023 er samþykkt af stjórn í október 2018 sem er 500 m.kr. hærri en stjórn hafði ráðgert. Stjórn var aldrei upplýst um hina nýju áætlun né kom hún til umfjöllunar á vettvangi hennar.
Við teljum að að stjórn Sorpu hafi brugðist rétt við þeirri stöðu sem upp kom varðandi framkvæmdir við gas- og jarðgerðarstöð og þann skort á upplýsingum sem stjórnin stóð frammi fyrir frá stjórnendum félagsins og lýsum við fullum stuðningi við stjórnina í þessu máli.