Mál númer 201603007
- 16. mars 2016
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #667
Yrkjusjóður - beiðni um stuðning. Meðfylgjandi er umsögn starfsmanna vegna sambærilegs erindis árið 2015.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að bæjarstjórn taki ekki undir þá niðurstöðu bæjarráðs að synja ósk Yrkjusjóðs um styrk upp á kr. 150 000 og ákveði þess í stað að styrkja sjóðinn.
Tilgangur sjóðsins er að kenna börnum að planta trjám og ala þau upp í að þykja vænt um landið sitt. Sjóðurinn hefur gefið út leiðbeiningarrit um skógrækt fyrir skólabörn og hefur starf hans því bæði menningarlegt og vistfræðilegt gild. Það er dapurlegt að bæjarstjórn skuli ekki hafa meiri skilning en raun ber vitni á uppeldishlutverki Yrkjusjóðs .
Vigdís Finnbogadóttir stofnaði Yrkjusjóðinn í forsetatíð sinni 1992 og hefur hann gefið grunnskólabörnum í Mosfellsbæ yfir 13 þúsund trjáplöntur til gróðursetningar.Tillagan er felld með átta atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa M-lista Íbúahreyfingarinnar.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar
Íbúahreyfingin leggur til að Mosfellsbær fari að dæmi annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og geri þjónustusamning við Skógræktarfélagið um rekstur útivistarsvæðisins undir Hamrahlíð. Með samningnum væri félaginu gert fjárhagslega kleift að halda við stígum og grisja skóg íbúum og útivistarfólki til ánægju og yndisauka.
Íbúahreyfingin leggur til að tillögunni verði vísað til umræðu í umhverfisnefnd.Tillagan er felld með átta atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa M-lista Íbúahreyfingarinnar.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar
Ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu á jafnmikið ræktarland og Mosfellsbær og leggur Íbúahreyfingin því til að bærinn láti vinna skógræktarskipulag fyrir sveitarfélagið, sbr. Borgarskógrækt sem er hluti af aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Tilgangurinn væri að skoða hvar skynsamlegt er að mynda skjólbelti fyrir byggðina og búa í haginn fyrir útivistarfólk framtíðarinnar á höfuðborgarsvæðinu. Samhliða þessu væri rétt að fá Landgræðsluna til að meta ástand lands og jarðvegs innan sveitarfélagsmarkanna.
Íbúahreyfingin leggur til að tillögunni verði vísað til umræðu í skipulagsnefnd og umhverfisnefnd.Tillagan er felld með átta atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa M-lista Íbúahreyfingarinnar.
Bókun fulltrúa V- og D- lista
Öflugt skógræktarstarf er stundað í Mosfellsbæ í samstarfi við Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og í gildi er samstarfssamningur milli þessara aðila.
Í vinnslu er á vettvangi skipulagsnefndar vinna við grænt skipulag fyrir sveitarfélagið allt. Á umræddum bæjarráðsfundi var jafnframt samþykkt tillaga um að Umhverfisnefnd taki sérstaka umræðu um skógrækt í Mosfellsbæ. Málið verður því til umfjöllunar heilstætt á vettvangi nefndarinnar. Bæjarfulltrúar V- og D- lista vilja leggja áherslu á mikilvægi þess að fagnefndir séu virkar í sínum störfum og finnst óeðlilegt að bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar sé sífellt að segja fagnefndum fyrir verkum.Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar mótmælir harðlega þeirri tilhæfulausu ásökun D-, og V-lista að fulltrúi Íbúahreyfingarinnar sé að ráðskast með fagnefndir, nánar tiltekið umhverfisnefnd og skipulagsnefnd, með því að senda þeim tillögur um úrbætur i skógræktarmálum. Það er hlutverk bæjarfulltrúa að vinna að málefnum sveitarfélagsins, setja sig inn í mál og koma vitneskju sinni og tillögum á framfæri á opnum fundum bæjarstjórnar. Fyrir það þiggja bæjarfulltrúar laun frá bæjarbúum. Íbúahreyfingin hefur reynt að sinna því hlutverki eftir bestu getu og mun halda því áfram þrátt fyrir litla þolinmæði meirihluta D- og V-lista gagnvart lýðræðislegri umræðu.Afgreiðsla 1250. fundar bæjarráðs samþykkt á 667. fundi bæarstjórnar með átta atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa M-lista Íbúahreyfingarinnar.
- 10. mars 2016
Bæjarráð Mosfellsbæjar #1250
Yrkjusjóður - beiðni um stuðning. Meðfylgjandi er umsögn starfsmanna vegna sambærilegs erindis árið 2015.
Bæjarráð getur ekki fallist á umbeðna styrkveitingu þar sem hún fellur ekki innan fjárhagsáætlunar.
Framkominn tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um að vísa erindinu til umhverfisnefndar til umsagnar er felld með þrem atkvæðum.
Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar telur mikilvægt að Mosfellsbær styðji betur við bakið á skógrækt í sveitarfélaginu en gert er. Verkefni Yrkjusjóðs hefur mikið fræðslugildi fyrir grunnskólabörn og er það hugsað sem hluti af umhverfisfræðslu. Íbúahreyfingin harmar því þá afstöðu bæjarráðs að styrkja ekki Yrkjusjóð en sjóðurinn hefur gefið börnum í Mosfellsbæ yfir 13 þúsund tré til gróðursetningar á undanförnum árum.
Íbúahreyfingin telur mikilvægt að endurskoða þá upphæð sem veitt er til skógræktar í Mosfellsbæ yfirleitt og brýnt að umsóknin verði tekin til umfjöllunar í umhverfisnefnd.Tillaga fulltrúa S-lista
Umhverfsnefnd taki til sérstakrar umræðu skógrækt í Mosfellsbæ, þar á meðal skógrækt á vegum grunnskólanna.Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum.
Bókun fulltrúa V-, D- og S- lista
Öflugt skógræktarstarf er stundað í Mosfellsbæ fyrst og fremst vegna starfs Skógræktarfélags Mosfellsbæjar sem og stuðnings bæjarins við það verkefni. Bæjarráð vísar til þess að unnið er að heildstæðu grænu skipulagi, þar sem jafnframt verði tekið á skógrækt, á vettvagni umhverfissviðs.