Mál númer 201404143
- 7. maí 2014
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #626
Erindi Sigrúnar Pálsdóttur og Hildar Margrétardóttur þar sem óskað er eftir umræðu um ritun fundargerða umhverfisnefndar.
Bókun vegna ritunar fundargerða.$line$$line$Bæjarfulltrúar S og M lista taka undir þá gagnrýni sem fram kemur í bókun fulltrúa S og M lista í nefndinni um ritun fundargerða. $line$Ljóst er að verulega skortir á að fundargerðir almennt séu ritaðar með þeim hætti að þær séu "lýsandi fyrir efni fundarins og þær ákvarðanir sem þar eru teknar og afstöðu einstakra nefndarmanna í því skyni að tryggja gagnsæi í nefndarstörfum" eins og segir í lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar. Ritun fundargerða með þeim hætti sem lýðræðisstefnan mælir fyrir um er mikilvægur þáttur í leiðarljósi hennar um "að virkja íbúa til þátttöku í málefnum og stefnumótun sveitarfélagsins og tryggja þannig aukna þátttöku þeirra í ákvarðanatöku og mótun nærumhverfis síns . Þannig skal stuðlað að virku íbúalýðræði sem leiðir af sér sátt um stefnumótun og ákvarðanir sveitarfélagsins" eins og segir í lýðræðisstefnunni.$line$Jafnframt er nauðsynlegt til að ná þessum markmiðum lýðræðisstefnunar að þau gögn sem tengd eru hverji máli og ekki eru bundin trúnaði, séu aðgengileg fyrir íbúa með fundargerðinni. $line$Það er ámælisvert hversu hægt hefur gengið að innleiða þær lýðræðislegu umbætur sem felast í lýðræðisstefnunni sem og að greinargerð sú sem leggja á fyrir bæjarráð í byrjun febrúar hvert ár, sem er mat á því hvernig gengur að framfylgja stefnunni, skuli ekki hafa verið lögð fram á þessu ári.$line$$line$$line$Tillaga.$line$Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarráði að vinna markvist að innleiðingu Lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar. Í því sambandi geri bæjarráð tímasetta framkvæmdaáætlun um verkið og leggi fyrir bæjarstjórn.$line$$line$Jónas Sigurðsson$line$Þórður Björn Sigurðsson$line$$line$$line$Bókun bæjarfulltrúa V og D- lista.$line$Hjá Mosfellsbæ hefur verið samþykkt metnaðarfull lýðræðisstefna og var bæjarfélagið meðal fyrstu bæjarfélaga til að samþykkja slíka stefnu. Eftir henni hefur verið unnið og hún innleidd markvisst síðan. Lögð var fyrir sérstök greinargerð á síðasta ári um framgang stefnunnar og verið er að ljúka við slíka greinargerð fyrir þetta ár sem brátt mun verða lögð fyrir bæjarráð. Bæjarfulltrúar V og D lista mótmæla því harðlega að hægt hafi gengið í innleiðingu lýðræðisstefnunnar hjá Mosfellsbæ, það sýna verkin. Af þessum sökum leggja bæjarfulltrúar V og D- lista til að tillögu S og M- lista verði vísað frá þar sem markvisst er verið að vinna að innleiðingu lýðræðisstefnunnar. $line$$line$Frávísunartillagan borin upp og samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur atkvæðum.$line$$line$$line$Afgreiðsla 150. fundar umhverfisnefndar samþykkt á 626. fundi bæjarstjórnar með sjö atkvæðum.
- 22. apríl 2014
Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar #150
Erindi Sigrúnar Pálsdóttur og Hildar Margrétardóttur þar sem óskað er eftir umræðu um ritun fundargerða umhverfisnefndar.
Tillaga um frávísun erindis borin upp til atkvæða. Samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu.
Bókun fulltrúa S- og M- lista
Fulltrúar M- og S- lista mótmæla harðlega þeirri staðhæfingu Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks að verklag við ritun fundargerða komi umhverfisnefnd ekki við.
Að gefnu tilefni gerum við að tillögu okkar að það verklag sem viðhaft er við ritun fundargerða í umhverfisnefnd Mosfellsbæjar verði tekið til gagngerrar endurskoðunar með það að leiðarljósi að gera íbúum og kjörnum fulltrúum kleift að kynna sér þau mál í þaula sem eru til umræðu í nefndinni. Það sama á eflaust við um fleiri nefndir.
Það þarf vart að taka fram að vönduð ritun fundargerða eru forsenda þess að bæjarbúar geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem varða hagsmuni þeirra og sveitarfélagsins, auk þess sem það gerir þeim betur kleift að taka virkan þátt í mótun samfélagsins.
Tillaga okkar felst í því að bæjarráði/bæjarstjórn verði falið að móta sem fyrst nýjar verklagsreglur um ritun fundargerða hjá Mosfellsbæ. Þau atriði sem mikilvægt er að gerð sé ítarlegri grein fyrir í fundargerð eru:
(1) umræðuefnið sjálft og með hvaða rökum mál er tekið á dagskrá,
(2) þau mismunandi sjónarmið sem uppi eru í nefndinni um málið (sé þess óskað),
(3) niðurstaða í hverju máli fyrir sig og með hvaða rökum hún er fengin, auk þess sem
(4) bæjarbúar fái rafrænan aðgang að þeim gögnum sem fylgja fundarboðum svo framarlega að ekki sé um trúnaðarupplýsingar að ræða, - eins og reyndar mælst er til í leiðbeiningum Innanríkisráðuneytisins um ritun fundargerða.