Mál númer 202111262
- 24. nóvember 2021
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #794
Tillaga að útsvarsprósentu 2022.
Bókun Samfylkingarinnar við ákvörðun útsvars 2022.
Meirihluti Vinstri grænna og sjálfstæðismanna leggur nú til, 6. árið í röð, að útsvarsprósentan verði 14.48% , það er 0,04 prósentustigum lægri en heimild er til og það þrátt fyrir mikla óvissu í framvindu efnahagsmála og hallarekstur bæjarsjóðs á síðasta ári. Þessi lækkun þýðir 24 milljóna króna lækkun útsvarstekna fyrir bæjarsjóð á árinu 2022 og verður þá upphæðin orðin um 70 milljónir á síðustu þremur árum. Fjárhagslegur ávinningur einstakra útsvarsgreiðenda hvað varðar aukið ráðstöfunarfé er mjög lítill og dugar fólki með meðaltekjur vart fyrir kaffibolla á bensínstöð. Þessar 24 milljónir sem meirihluti VG og D lista telja ekki þörf á inn í rekstur bæjarins á árinu 2022 mætti, að mati Samfylkingarinnar þó nýta í ýmis brýn verkefni á vegum Mosfellsbæjar s.s. aukna sérfræðiþjónustu og stuðning innan skólakerfisins, aukinn kraft í umhverfis- og loftslagsmálum eða til að hækka stuðning við þá sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi, svo einhver dæmi séu nefnd. Einnig virkar það ekki sannfærandi þegar sveitarfélög átelja ríkisvaldið, og það með réttu, að láta ekki fjármuni fylgja þeim verkefnum sem flutt eru til þeirra frá ríkinu að á sama tíma séu sveitafélögin ekki að fullnýta þá tekjustofna sem þau þó hafa heimildir til. Fulltrúi Samfylkingarinnar greiðir atkvæði gegn því að fullnýta ekki tekjustofn útsvars enda er sú ákvörðun öll á ábyrgð meirihluta VG og sjálfstæðismanna og hefur ekki verið rædd við fulltrúa í minnihluta í aðdraganda ákvörðunarinnar. Ólafur Ingi Óskarsson bæjarfulltrúi S-listaBókun M-lista
Fulltrúi M-lista áréttar að hámark útsvar almennt er 14,52% og lágmark 12,44%. Hér ákvarðar meirihluti V- og D-lista útsvarsprósentuna 14,48% sem er lægra en hámarkið en líkur eru á að með hagræðingu og færri gæluverkefnum mætti lækka útsvarið enn frekar.Tillaga er gerð um að útsvarshlutfall Mosfellsbæjar fyrir árið 2021 verði óbreytt, 14,48% af útsvarsstofni. Tillagan var samþykkt með sex atkvæðum. Fulltrúar C- og M-lista sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Fulltrúi S-lista greiddi atkvæði gegn tillögunni