Mál númer 201611136
- 23. nóvember 2016
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar #683
Ákvörðun um útsvarsprósentu 2017
Tillaga er gerð um að útsvarshlutfall Mosfellsbæjar fyrir árið 2017 verði 14,48% af útsvarsstofni.
Tillagan er samþykkt með sex atkvæðum fulltrúa D- og V-lista gegn þremur atkvæðum S- og M-lista.
Bókun Samfylkingarinnar
Meirihluti sjálfstæðismanna og vinstri grænna leggja nú til lækkun á útsvarsprósentu, úr 14.52% í 14.48% eða um 0,04 prósentustig. Þessi lækkun þýðir 14,4 milljóna króna lækkun útsvarstekna fyrir bæjarsjóð. Peningalegur ávinningur einstakra útsvarsgreiðenda hvað varðar aukið ráðstöfunarfé, er minniháttar eða rétt um 240 krónur á mánuði af 600 þús. króna mánaðartekjum sem dæmi. Þessar tæpu fjórtán og hálfu milljónir mætti hins vegar nýta í brýn verkefni sem eru á forræði sveitarfélagsins t.d. inn í bætta þjónustu við barnafjölskyldur, bætta sérfræðiþjónustu og stuðning inni í leikskólum og grunnskólum, hækkun fjárhagsaðstoðar, umhverfisverndarverkefni, eflingu tónlistarkennslu eða bætt starfsumhverfi innan skólanna svo eitthvað sé nefnt.Með það í huga að ávinningur samfélagsins af því að hafa þessar 14,4 milljónir inni í samfélagslegum verkefnum vegi mun þyngra en ávinningur einstakra útsvarsgreiðenda af þessari 0,04 prósentustiga lækkun telur Samfylkingin ekki skynsamlegt að lækka útsvarsprósentuna og greiðir atkvæði gegn lækkun.
Anna Sigríður Guðnadóttir
Ólafur Ingi ÓskarssonBókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar telur að ekki sé innstæða fyrir lækkun útsvars í Mosfellsbæ á árinu 2017. Starfsmenn sveitarfélaga eru sá launahópur sem lægstar tekjur hefur á Íslandi. Kennarar eru hundóánægðir með sín kjör og fé skortir til að sinna ýmsum brýnum verkefnum. Svo dæmi sé tekið sjá starfsmenn umhverfissviðs ekki fram úr verkefnum vegna nýbygginga og 140 börn bíða eftir að fá að hefja nám í tónlistarskólanum. Á báðum þessum stöðum vantar starfsfólk til að sinna augljósri þörf. Fjárhagsaðstoð er langt undir neysluviðmiði og árum saman hefur skort fé til að ráðast í stígagerð í íbúðahverfum og verkefni í þágu náttúruverndar o.fl. Fyrir hinn venjulega launþega skiptir 0,04% lækkun af 14,52% engu máli, einungis þá sem mestar tekjur hafa.Bæjarstjóri Mosfellsbæjar hefur oftsinnis vakið athygli á því á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga að ríkið sjái sveitarfélögum ekki fyrir nægilegu fé til að reka grunnþjónustuna. Íbúahreyfingin telur að útsvarslækkun sé ekki til þess fallin að sannfæra ríkið um að hækka framlagið og greiðir atkvæði gegn lækkun.
Bókun V- og D- lista
Tillaga að fjárhagsáætlun ársins 2017 felur í sér bætta þjónustu og minni álögur, þar má nefna aukna þjónustu til handa fjölskyldum ungra barna, hækkun frístundaávísunar, stofnun ungmennahúss, aukna tónlistarkennslu og aukið fjármagn til viðhalds, einkum skólabygginga, svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt er tekið frá fjármagn til að koma til móts við væntanlega hækkun launa kennara í komandi kjarasamningum. Meirihluti D- og V- lista telur mikilvægt að allt samfélagið njóti góðs af bættu rekstrarumhverfi sveitarfélagsins. Þess vegna er gert ráð fyrir lækkun fasteignaskatta og lækkun útsvars.