13. júní 2013 kl. 18:30,
2. hæð Helgafell
Fundinn sátu
- Hreiðar Örn Zoega Stefánsson (HÖZS) formaður
- Bryndís Brynjarsdóttir (BBr) varaformaður
- Þórhallur G Kristvinsson aðalmaður
- Sæunn Þorsteinsdóttir aðalmaður
- Björn Þráinn Þórðarson framkvæmdastjóri menningarsviðs
Fundargerð ritaði
Björn Þráinn Þórðarson framkvæmdastjóri menningarsviðs
Dagskrá fundar
Almenn erindi
1. Bæjarlistamaður 2013201305130
Seinni umferð kjörs bæjarlistamanns 2013.
Menningarmálanefnd leggur til við bæjarstjórn að Ólafur Gunnarsson rithöfundur verði bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2013.
Ólafur Gunnarsson er einn helsti rithöfundur Íslands. Hann dregur upp lifandi og litsterka mynd af sögutíma og persónum og er
ósmeykur við að velta upp þeim stóru siðferðilegu spurningum sem spurt er í alvöru skáldskap. Hann hefur nýtt sögu Íslands á mjög áhugaverðan hátt í skáldskap. Ólafur er afkastamikill rithöfundur og skáldsögur hans hafa fengið góðar viðtökur og viðurkenningar.Tröllakirkja (1992) var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Íslensku bókmenntaverðlaunin hlaut Ólafur fyrir sögulegu skáldsöguna Öxin og jörðin (2003). Ferðasagan Úti að aka (2006), sem hann skrifaði í samstarfi við Einar Kárason, fékk góðar viðtökur gagnrýnenda. Skáldsagan Milljón prósent menn hefur komið út í enskri þýðingu.
Meðal merkra verka Ólafs eru Blóðakur, Gaga, Heilagur andi og englar vítis, Höfuðlausn, Ljóstollur, Milljón prósent menn, Sögur úr Skuggahverfinu : Tvær sögur, Tröllakirkja, Vetrarferðin og Öxin og jörðin.
Hann hefur einnig skrifað barnabækur eins og Fallegi flughvalurinn, Fallegi flughvalurinn og sagan af litla stjörnukerfinu og Snjæljónin. Þá hefur Ólafur þýtt bækur eins og Á vegum úti og Möltufálkinn. Hann hefur gert leikritið Regnbogastrákurinn og ljóðabækur hans eru Hrognkelsin: Cyclopteri Lumpi, Ljóð og Upprisan eða undan ryklokinu.