11. febrúar 2014 kl. 17:15,
2. hæð Helgafell
Fundinn sátu
- Eva Magnúsdóttir (EMa) formaður
- Bryndís Brynjarsdóttir (BBr) varaformaður
- Hafsteinn Pálsson (HP) aðalmaður
- Elísabet Sigurveig Ólafsdóttir (ESÓ) aðalmaður
- Anna Sigríður Guðnadóttir (ASG) aðalmaður
- Sæunn Þorsteinsdóttir áheyrnarfulltrúi
- Fjalar Freyr Einarsson áheyrnarfulltrúi
- Helga Jóhanna Magnúsdóttir áheyrnarfulltrúi
- Þrúður Hjelm áheyrnarfulltrúi
- Óskar Grímur Kristjánsson áheyrnarfulltrúi
- Kristín Ásta Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi
- Elísabet S Valdimarsdóttir áheyrnarfulltrúi
- Magnea S Ingimundardóttir (MI) fræðslusvið
- Gunnhildur María Sæmundsdóttir fræðslusvið
- Björn Þráinn Þórðarson framkvæmdastjóri fræðslusviðs
Fundargerð ritaði
Björn Þráinn Þórðarson framkvæmdastjóri fræðslusviðs
Dagskrá fundar
Almenn erindi
1. Uppbygging skólamannvirkja og skólahverfi í Mosfellsbæ201301573
Fyrir fundinum liggur samantekt um uppbyggingu skólamannvirkja, aðdragandi og forsendur.
Lögð fram gögn frá foreldrafélagi Lágafellsskóla, fulltrúafundi foreldrafélaga allra leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ og fulltrúaráði Huldu- og Höfðabergs, auk samantektar um uppbyggingar skólamannvirkja í Mosfellsbæ.
Eftirfarandi greinargerð og bókun var lögð fram:
Lögð er fram samantekt um uppbyggingu skólamannvirkja í Mosfellsbæ á næstu árum. Samantektin fjallar um það samráðsferli sem farið hefur fram á vegum fræðslunefndar frá því fræðslunefnd samþykkti þann 12. febrúar 2013 að hefja byggingu skóla á vestursvæði og í Helgafellslandi. Samantektin er aðgengileg á heimasíðu bæjarins.
Fræðslunefnd hefur frá þeim tíma staðið fyrir tveimur skólaþingum, samantekt er í smíðum þar sem tekin hafa verið saman sjónarmið nemenda á aldrinum 2ja til 18 ára hvað varðar einkenni góðs skóla. Öll þessi gögn munu gagnast við þarfagreiningu vegna byggingar skólabygginga sem í vændum eru í Mosfellsbæ á næstu árum. Undanfarið misseri hefur sjónum verið beint að staðsetningu skóla og úrlausn varðandi skólahúsnæði Lágafellsskóla og Varmárskóla sem kemur til af fjölgun nemenda nú þegar og í framtíðinni. Allar þær samræður, samráð og samtal sem átt hefur sér stað í þessu ferli við skólasamfélagið á þingum og fundum skipta miklu fyrir ákvarðanatöku sveitarfélagsins og leiða að vonum til betri ákvarðana sem ríkir meiri sátt um.
Fræðslunefnd lýsir yfir ánægju með þetta ferli og vonast til að áframhaldandi samráð leiði til enn frekari ávinnings fyrir börn og nemendur í Mosfellsbæ í formi betri og þróaðri skólabygginga.
Niðurstöður sem nú liggja fyrir beinast að ákvarðanatöku um skólahúsnæði til lengri og skemmri tíma.
Fræðslunefnd leggur til við bæjarstjórn að byggðar verði tvær nýjar færanlegar kennslustofur og þær settar upp á skólalóð Varmárskóla til að koma til móts við fjölgun nemenda í skólanum á næstu tveimur árum. Í fyrri áætlunum hefur komið fram að hugsanlega þyrfti að fjölga stofum á árinu 2015 og er þessari viðbót þá flýtt um ár.
Fræðslunefnd leggur til að kannaðir verði möguleikar á að stækka Krikaskóla. Í því ferli verði jafnframt könnuð áhrif þess á tímasetningar á byggingu Helgafellsskóla.
Fræðslunefnd leggur til að hafin verði bygging nýs skólahúsnæðis við Æðarhöfða á svæði því sem stendur nærri Höfðabergi í samræmi við samantekt sem lögð var fram á fundinum. Skólanum er ætlað að vera skólahúsnæði fyrir grunnskólanemendur en geti nýst sem leikskóli í framtíðinni. Stefnt er að því að skólahúsnæði þetta nýtist fyrir leikskóladeild fyrir 5 ára börn og 1. og 2. bekk grunnskóla næstu árin.
Loks er lagt til að í samræmi við framlagða samantekt verði fimm færanlegar skólastofur á skólalóð Lágafellsskóla færðar og settar við hlið stofanna sem nú mynda Höfðaberg og verða nýttar fyrir hina nýju skóladeild þar til haustið 2016.
Fræðslunefnd leggur til við bæjarstjórn Mosfellsbæjar að hafinn verði undirbúningur að nýjum skóla sem rísa á í Helgafellslandi í samræmi við samantekt sem lögð var fram á fundinum. Undirbúningurinn skuli taka mið af uppbyggingu og fjölgun íbúa í Helgafellslandi næstu misserin. Jafnframt verði skoðaður enn frekar sá möguleiki að miðskóli rísi við Sunnukrika og taki skoðunin mið af skipulagslegum, fjárhagslegum og faglegum forsendum.Samþykkt með fjórum atkvæðum.
Bókun fulltrúa S-lista og M-lista:
Fulltrúi Samfylkingar situr hjá við afgreiðslu tillagna meirihluta fræðslunefndar um uppbyggingu skólamannvirkja í bænum. Þær bráðabirgðalausnir sem meirihlutinn hyggst grípa til ætti að vinna í nánara samráði við foreldrasamfélagið en eins og fram hefur komið í máli ýmissa umsagnaraðila og birtist glöggt í ályktun fulltrúafundar foreldrafélaga allra leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ sem lögð var fram á fundi fræðslunefndar í dag, þá hefur verulega skort á samráð og samtal í þessu ferli sem einnig fór allt of seint af stað og er of skammt á veg komið.
Framtíðarsýn á uppbyggingu skólamannvirkja í Mosfellsbæ er hvorki fugl né fiskur og leggur fulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi Íbúahreyfingar áherslu á að sú lausn að reisa varanlegt skólahúsnæði miðsvæðis í bænum verði skoðuð mjög ítarlega og í góðu samráði við foreldrafélögin sem fyrsta skref til framtíðarlausnar. Skólabygging á því svæði gæti tappað að yfirfullum skólum í bænum og síðan þróast til framtíðar í takti við þarfir bæjarins m.a. þar til tímabært verður að byggja varanlegt skólahúsnæði í nýbyggingahverfum bæjarins.
Bókun meirihluta fræðslunefndar:
Meirihluti fræðslunefndar ítrekar eins og fram kemur í samþykkt meirihlutans á fræðslunefndarfundinum, þá hefur átt sér stað víðtækt samráð við foreldrafélög, skólaráð, skólastjórnendur og starfsmenn í heilt ár. Eins og fram kemur í fyrri bókun voru haldin tvö skólaþing þar sem allir bæjarbúar gátu haft aðkomu. Auk þess var ábendingakerfi komið upp á heimasíðu bæjarins þar sem allir bæjarbúar gátu sagt skoðanir sínar varðandi þessa stefnumótun og komið athugasemdum sínum á framfæri. Meirihluta fræðslunefndar er það til efs að nokkurt sveitarfélag hafi viðhaft slíkt samráð í málum sem þessum.
Tillögur meirihlutans byggjast á því að finna framtíðarlausnir fyrir skólastarf í bæjarfélaginu. Það geta seint talist bráðabirgðalausnir að hefja hönnun og byggingu á nýju skólahúsnæði.