Nú drögum við Sjálfstætt fólk fram úr hillunum og fögnum því að 90 ár eru liðin frá því að fyrri hluti þessarar stórkostlegu bókar kom út. Sjálfstætt fólk kom út á árunum 1934-35. Safnið á Gljúfrasteini fagnar einnig 20 ára afmæli um þessar mundir. Af þessu tilefni verður efnt til skáldagöngu, sunnudaginn 8. september, kl. 14:00.
Gengið verður frá Gljúfrasteini upp að Helgufossi með göngustjóra í fararbroddi. Rithöfundarnir Gerður Kristný, Kristín Svava Tómasdóttir og Pétur Gunnarsson munu lesa sérvalda kafla upp úr Sjálfstæðu fólki. Við Helgufoss bíða göngufólki léttar kaffiveitingar og meðlæti.
Gangan hefst stundvíslega kl. 14:00 og gengið verður frá Gljúfrasteini. Göngufólk er hvatt til að mæta í viðeigandi skóbúnaði og hlífðarfatnaði í takt við veðurspá. Gott er að gera ráð fyrir rúmri klukkustundar göngu hvora leið.
Við bendum göngufólki á að næg bílastæði eru við Jónstótt.
Öll velkomin!