Mosfellsbær í samstarfi við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins boðar til opins fundar í félagsheimilinu Hlégarði mánudaginn 14. október kl. 17:00.
Álafosskvosin er fallegt svæði með ríka sögu sem í gegnum tíðina hefur dregið til sín marga gesti, bæði innlenda og erlenda. Mosfellsbær fól Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins það verkefni að kanna hvort hægt sé að efla Álafosskvosina sem áfangastað fyrir gesti.
Farið var í ákveðna greiningu ásamt því að haldinn var hagaðilafundur þar sem markmiðið var að heyra raddir aðila og kanna hvort og hvernig megi efla Álafosskvosina sem áfangastað.
Áherslan var á að skoða t.d. hvað gerir Álafosskvosina að áhugaverðum stað til að heimsækja, fyrir hvern er svæðið áhugavert og hvers konar gestir henta svæðinu og hvað væri hægt að gera til að efla svæðið.
Nú er boðið til opins fundar þar sem ætlunin er að fara yfir þessa greiningu ásamt því að eiga samtal um framhaldið.
Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins / Visit Reykjavík vinnur að þróun og markaðssetningu á áfangastaðnum í heild. Áherslan er á að efla atvinnustarfsemi og auka gjaldeyristekjur. Stofan er samstarfsvettvangur sveitarfélaga og ferðaþjónustunnar um ferðamál á höfuðborgarsvæðinu.