Í tilefni af 25 ára afmæli Hins íslenska glæpafélags bjóðum við öllum lesendum glæpasagna að taka þátt í æsispennandi spurningakeppni um íslenskar glæpasögur fimmtudaginn 5. september.
Keppnin verður samin af nokkrum ákaflega vafasömum félögum Hins íslenska glæpafélags.
Keppnin verður haldin á mörgum almenningsbókasöfnum samtímis, í aðdraganda Bókasafnsdagsins sem alltaf er fagnað í september en alþjóðlegur dagur læsis er 8. september.
Það er því um að gera að nota tímann vel og glugga í gamlar jafnt sem nýjar glæpasögur til að rifja upp hin ýmsu plott og hrollvekjandi atburði sem íslenskir höfundar hafa sett saman í bókum sínum, okkur lesendum til ánægju og yndisauka.
Auður forstöðumaður bókasafnsins verður í hlutverki glæpakviss-stjóra. Boðið verður upp á léttar veitingar og að sjálfsögðu verða veitt verðlaun fyrir fyrsta sætið.
Viðburðurinn er hluti af viðburðaröðinni Glæpafár á Íslandi á vegum Hins íslenska glæpafélags í samstarfi við almenningsbókasöfn landsins til að fagna 25 ára afmæli félagsins.