Rósa Traustadóttir opnar sýningu sína Áhrifavaldur = Shinrin Yoku í Listasal Mosfellsbæjar laugardaginn 18. mars kl. 14-16.
Rósa er að mestu sjálfmenntuð í myndlist en stundaði nám í Myndlistarskóla Kópavogs um nokkurt skeið og hefur sótt þau námskeið sem Vatnslitafélag Íslands hefur staðið fyrir. Rósa heillaðist af vatnslitum og þeirra einstaka krafti til að flæða og taka völdin. Vatnslitamyndir á sýningunni eru innblásnar af náttúrunni í Mosfellsbæ. Daglega gengur listamaðurinn meðfram Varmánni og við Reykjalundarskóg. Þar upplifir hún mismunandi flæði eftir árstíðum hvað varðar gróður, fuglasöng og vatnsflaum í ánni.
Nafn sýningarinnar ber þess merki að mikill áhrifavaldur í lífi listamannsins er náttúran og skógurinn. Shinrin Yoku er hugtak á japönsku sem má þýða sem skógarbað. Ilmkjarnaolíur sem unnar eru úr íslenskum skógum frá Nordic Angan eru notaðar á sýningunni til að mynda þennan sérstaka ljúfa og heilandi ilm skógarins.
Síðasti sýningardagur er 15. apríl.
Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Þverholti 2. Opið er kl. 9-18 alla virka daga og kl. 12-16 á laugardögum. Gott hjólastólaaðgengi er að salnum.
Öll hjartanlega velkomin.