Á hverju ári velur Mosfellsbær íþróttakonu og íþróttakarl ársins og heiðrar sitt besta og efnilegasta íþróttafólk.
Kjör íþróttakonu og íþróttakarls Mosfellsbæjar fór fram við hátíðlega athöfn á veitingastaðnum Blik fimmtudaginn 6. janúar 2021.
Íþróttakona Mosfellsbæjar 2021
Thelma Dögg Grétarsdóttir blakkona
Árið 2021 var gott ár fyrir Thelmu en hún var yfirburðaleikmaður á vellinum á árinu. Thelma varð Íslandsmeistari í blaki með Aftureldingu. Á uppskeruhátíð Blaksambands Íslands fyrir leiktímabilið 2020-2021 var Thelma valin stigahæsti leikmaðurinn í sókn, stigahæsti leikmaðurinn í uppgjöf og stigahæsti leikmaðurinn samtals. Hún var einnig valin besti Díó-inn á leiktímabilinu og í draumaliðið auk þess sem hún var valin besti leikmaður leiktímabilsins. Thelma er einn af máttarstólpum íslenska landsliðsins í blaki og er í A-landsliði Íslands.
Íþróttakarl Mosfellsbæjar 2021
Guðni Valur Guðnason kringlukastari
Guðni Valur var valinn frjálsíþróttakarl Frjálsíþróttasambands Íslands 2021. Hann situr í 17. sæti á Evrópulistanum og er fyrirliði íslenska karlalandsliðsins. Guðni byrjaði tímabilið á glæsilegri bætingu í kúluvarpi á Reykjavík International Games með kast upp á 18,81 m. Hann varð Íslandsmeistari í kúluvarpi innanhúss með kast upp á 18,40 m. Guðni vann til silfurverðlauna í kringlukasti á Evrópska bikarkastmótinu í Split með kasti upp á 63,66 m. Guðni keppti í kringlukasti á Ólympíuleikunum sem fram fóru í Tokyo í fyrra. Hann náði þriðja sæti í kringlukasti á Göteborgs Fridrott Grand Prix á eftir gull- og silfurverðlaunahöfunum frá Ólympíuleikunum með kasti upp á 64,92 m.