Þegar mannvirki er tekið í notkun áður en því er að fullu lokið skal óska eftir öryggisúttekt. Öryggisúttekt snýst um að gera úttekt á öryggi húsnæðisins í samræmi við ákvæði skoðunarhandbókar og skoðunarlista varðandi eldvarnir og hollustuhætti.
Óheimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema öryggisúttekt hafi farið fram og leyfisveitandi byggingarleyfis hafi gefið út vottorð um öryggisúttekt.
Eigandi mannvirkisins, eða byggingarstjóri fyrir hönd eiganda, skal óska eftir öryggisúttekt áður en það er tekið í notkun. Hafi byggingarstjóri vanrækt að óska eftir öryggisúttekt áður en mannvirki er tekið í notkun skal leyfisveitandi boða til slíkrar úttektar þegar honum er kunnugt um að notkun sé hafin. Skal leyfisveitandi tilkynna vanræksluna til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og getur slík vanræksla leitt til áminningar eða í versta falli leitt til sviptingar starfsleyfis eða löggildingar eftir því sem við á.
Upplýsingar um hvaða gögn þurfi að fylgja með beiðni um öryggisúttekt má finna í grein 3.8.2 í byggingarreglugerð.
Lokaúttekt á mannvirki skal fara fram eigi síðar en þremur árum eftir að öryggisúttekt hefur farið fram. Heimilt er að öryggis- og lokaúttekt fari fram samtímis.