Skiptist í tvo meginþætti.
Samþykkt byggingaráforma
Öll byggingarmál byrja þannig að umsækjandi óskar eftir byggingarheimild / byggingarleyfi með því að sækja um í gegnum rafræna þjónustugátt embættisins.
Mikilvægt er að samþykki allra eigenda byggingarlóðarinnar liggi fyrir eða séu skráðir umsækjendur um byggingarleyfið / byggingarheimildina.
Með umsókninni þurfa að fylgja eftirfarandi gögn:
- Tilkynning um hönnunarstjóra mannvirkisins ásamt staðfestingu hans á verkið í gegnum þjónustugátt. (Á aðeins við umsókn um byggingarleyfi).
- Fullunnir aðaluppdrættir sem gerðir eru af löggildum hönnuði, s.s. arkitekt, byggingafræðingi, tæknifræðingi eða verkfræðingi.
- Útfylltur gátlisti eða önnur staðfesting hönnuðar á eigin yfirferð aðaluppdrátta.
- Skráningartafla á aðaluppdrætti og á rafrænu formi (excel).
Ef umsókn og fylgigögn eru fullnægjandi fara starfsmenn byggingarfulltrúa yfir þau, niðurstaða yfirferðar er send verkkaupa og hönnuði. Ef ekki er í gildi deiliskipulag á lóð vísar byggingarfulltrúi því til umsagnar skipulagsnefndar.
Ef umsókn er ekki í samræmi við gildandi skipulag er umsókn hafnað eða málið sent áfram á skipulagsfulltrúa.
Þegar yfirferð umsóknar og fylgigagna er lokið án athugasemda er málið afgreitt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa.
Eftir afgreiðslufund er umsækjandi upplýstur um niðurstöðuna formlega með birtingu afgreiðslubréfs.
Samþykkt byggingaráform jafngildir ekki byggingarheimild / byggingarleyfi heldur gefur aðeins til kynna að byggingaráformin séu í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar og skipulagsskilmála og senda megi inn frekari gögn, s.s. séruppdrætti og skráningar fagaðila, til að fá byggingarheimild / byggingarleyfi útgefið. Óheimilt er að hefja framkvæmdir áður en byggingarheimild / byggingarleyfi hefur verið gefið út.
Byggingarleyfi / byggingarheimild
Forsendur fyrir útgáfu byggingarleyfis eða byggingarheimildar eru:
- Skil á fullnægjandi teikningum, þ.e. aðaluppdráttum af fyrirhugaðri framkvæmd
- Skil á skráningartöflu mannvirkisins
- Skil á upplýsingum um byggingarstjóra ásamt staðfestingu starfsábyrgðartryggingar.
- Skil á upplýsingum um iðnmeistara
- Byggingarleyfisgjöld hafa verið greidd
Skil séruppdrátta vegna byggingarleyfis: Séruppdráttum af burðarvirki, pípulögnum og raflögnum skal skilað til byggingarfulltrúa áður en viðkomandi verkþáttur hefst.
Skil séruppdrátta vegna byggingarheimildar: Séruppdráttum af burðarvirki, pípulögnum og raflögnum skal skilað til byggingarfulltrúa áður en óskað er eftir lokaúttekt.