Byggingarleyfi
Byggingarleyfi á við um umfangsflokka 2 og 3.
Undir umfangsflokk 2 falla mannvirki sem eru „meðalstór þar sem ekki er mikil hætta á manntjóni, efnahagslegar, samfélagslegar og umhverfislegar afleiðingar tjóns á mannvirki eru viðunandi“. Í umfangsflokki 2 eru mannvirki þar sem miðað er við að fólk geti haft fasta búsetu, án þess endilega að þekkja flóttaleiðir – en geti þó bjargað sér sjálft út úr mannvirkinu. Í þennan flokk falla m.a. eftirfarandi mannvirki:
- Íbúðarhúsnæði
- Gistiheimili
- Atvinnuhúsnæði
- Iðnaðarhúsnæði
- Bílastæðahús
- Sé mannvirki hærra en 8 hæðir og stærra en 10.000 fermetrar flokkast það almennt í umfangsflokk 3.
Í umfangsflokk 3 falla „mannvirki þar sem gert ráð fyrir að mikill fjöldi fólks geti safnast saman eða að notkun þeirra sé þannig að fólk geti ekki bjargað sér sjálft úr mannvirkinu“.
Séu mannvirki ekki hærri en fjórar hæðir og ekki stærri en 2.000 fm er heimilt að fella þau undir umfangsflokk 2 ef flækjustig hönnunarinnar er ekki því meira. Í umfangsflokk 3 falla eftirtalin mannvirki:
- Verslunarmiðstöðvar
- Skólar
- Íþrótta- og menningarmannvirki
- Stærri veitur og virkjanir
- Lokaðar stofnanir, s.s. sjúkrahús, dvalar- og hjúkrunarheimili, lögreglustöðvar og fangelsi.
Sótt er um leyfisskyldar framkvæmdir á sama eyðublaðinu inni á Þjónustugátt Mosfellsbæjar.
Byggingarfulltrúi tekur afstöðu til umsóknar og metur hvort hún flokkast sem umsókn um byggingarleyfi eða byggingarheimild.
Byggingarheimild
Byggingarheimild er nýtt hugtak sem varð til við breytingu á byggingarreglugerð 123/2010 í árslok 2021 (nr. 1321/2021).
Breyting byggingarreglugerðarinnar fólst fyrst og fremst í því að byggingarframkvæmdum var skipt upp í 3 flokka eftir umfangi þeirra, í þeim tilgangi að skýra stjórnsýslu í mannvirkjamálum og gera umsóknarferlið skilvirkara. Kröfur um hönnun og byggingareftirlit eru þær sömu hvort sem um er að ræða byggingarheimild eða byggingarleyfi. Kröfur um yfirferð séruppdrátta og skil á þeim áður en viðkomandi verkþáttur er unninn er þó rýmri á málum sem fá byggingarheimild, séruppdrættir þurfa að liggja fyrir áður en sótt er um öryggis- og lokaúttekt. Á málum sem fá byggingarheimild er auk þess ekki skylda að skrá iðnmeistara verksins hjá byggingarfulltrúa – en þó er skylda að byggingarstjóri verksins haldi utan um þær upplýsingar í sínu gæðakerfi.
Umsókn og veiting byggingarheimildar á við um þau mannvirki sem falla í umfangsflokk 1 skv. byggingarreglugerð. Í þessum umfangsflokki eru „minni mannvirkjagerð þar sem lítil hætta er á manntjóni, efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar mögulegs tjóns á mannvirki eru litlar og umhverfisáhrif eru takmörkuð“ – eins og segir í grein 1.3.2 byggingarreglugerðarinnar. Haft er til viðmiðunar að í þessum umfangsflokki séu mannvirki þar sem ekki safnast saman mikill fjöldi fólks og fólk hefur ekki fasta búsetu. Í umfangsflokk 1 falla t.d. eftirtaldar byggingarframkvæmdir:
- Geymsluhúsnæði
- Landbúnaðarbyggingar
- Frístundahús (sumarhús)
- Sæluhús
- Stakstæðir bílskúrar
- Gestahús
- Skálar og viðbyggingar við þegar byggð mannvirki.
- Niðurrif mannvirkja (að hámarki 4 hæðir og/eða minna en 2.000 fermetrar)